Innlent

Þurrt og bjart að mestu sunnan og suðvestan til um helgina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir hádegi á morgun lítur ágætlega út fyrir Suðurlandið.
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir hádegi á morgun lítur ágætlega út fyrir Suðurlandið.
Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands ætti að vera þurrt og bjart að mestu sunnan og suðvestan til á landinu um helgina og hlýjast suðvestanlands.

Það gæti þó verið skýjað með köflum en á morgun verður norðlæg átt og fremur stífur vindur allra vestast en annars mun hægari, að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þá verður fremur þungbúið norðan-og austanlands og rigning eða skúrir með köflum.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Fremur hægur vindur, en vestlæg átt 5-13 austantil á landinu, hvassast við suðaustur- og norðurströndina. Skýjað með köflum og víða skúrir, en úrkomulítið á Norðurlandi vestra. Hæg norðlæg átt á morgun og skúrir austantil, en víða bjart á Suðvesturhorninu. Hiti 9 til 17 stig að deginum, hlýjast norðaustanlands í dag, en á Suðurlandi á morgun.

Á sunnudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu og skúrir austantil, en skýjað með köflum eða bjartviðri sunnan- og vestanlands og þurrt að kalla. Hiti 8 til 18 stig, mildast suðvestanlands.

Á mánudag:

Hæg norðvestlæg átt og víða léttskýjað. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast suðvestantil.

Á þriðjudag:

Fremur hæg suðlæg átt og bjart, en þykknar upp síðdegis með dálítilli vætu austanalands. Hiti 10 til 17 stig.

Á miðvikudag:

Fremur hæg vestlæg eða breytileg átt, en sunnan 8-13 við austurströndina. Skýjað að mestu og dálítil væta, einkum seinnipartinn. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir norðvestlæga átt og vætu, einkum norðaustantil. Áfram milt í veðri.

Hugleiðingar veðurfræðings:

Fremur hæg breytileg átt á landinu í dag og milt í veðri. Skýjað eða skýjað með köflum og sums staðar skúrir og ætti sólin að sjást eitthvað í flestum landshlutum. Norðlæg átt á morgun, fremur stífur vindur allra vestast á landinu, en annars mun hægari. Fremur þungbúið norðan- og austanlands og rigning með köflum eða skúrir, en þurrt og bjart að mestu á Suður- og Suðvesturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×