Viðskipti innlent

Tekjur Haga minnkuðu um 8,5 prósent fyrsta mánuðinn eftir opnun Costco

Hörður Ægisson skrifar
Hlutabréf Haga, sem rekjur meðal verslanir undir merkjum Bónus, hafa fallið í verði um 22 prósent frá opnun Costco í lok maí.
Hlutabréf Haga, sem rekjur meðal verslanir undir merkjum Bónus, hafa fallið í verði um 22 prósent frá opnun Costco í lok maí. vísir/anton brink
Sala í verslunum smásölurisans Haga dróst saman um 8,5 prósent í krónum talið í júnímánuði miðað við sama tímabil í fyrra að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi. Þá minnkaði framlegð samstæðunnar um 0,4 prósentustig á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar en þar segir að „breytt markaðsumhverfi [hafi] haft áhrif á rekstur og markaðsstöðu félagsins.“ Bráðabirgðauppgjör júnímánaðar liggi nú fyrir og ljóst sé að þessi breytta markaðsstaða mun „hafa nokkur áhrif á afkomu annars fjórðungs, en of snemmt er að segja til um hve mikil áhrifin verða á afkomu næstu ársfjórðunga eða til framtíðar,“ að því er segir í tilkynningu Haga.

Meira en mánuður er liðinn frá því að bandaríski smásölurisinn Costco opnaði vöruhús sitt í Garðabæ, eða þann 23. maí síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur hlutabréfaverð Haga fallið í verði um rúmlega 22 prósent og markaðsvirði félagsins minnkað um rúmlega 13 milljarða króna.

Hagar reka meðal annars verslanir undir merkjum Bónus og Hagkaup.

Í tilkynningu Haga er bent á að á fyrsta fjórðungi núverandi rekstrarárs, sem nær frá mars til maí, hafi verið magnaukning á milli ára upp á 1,8 prósent í matvöruverslunum samstæðunnar þrátt fyrir 2,6 prósent samdrátt í krónum talið. Þá hafi fjöldi viðskiptavina matvöruverslana aukist um 1,7 prósent en í þeim tölum var ekki búið að taka tillit til lokunar matvöruhluta Hagkaups Holtagörðum og efri hæðar Hagkaups Kringlu.

„Ef bornar eru saman sambærilegar tölur fyrir júnímánuð þá var magnminnkun í einingum 9,4 prósent í matvöruverslunum samstæðunnar og viðskiptavinum fækkaði um 1,8 prósent á milli ára.  Sölusamdráttur á milli ára var 8,5 prósent í krónum talið í júní að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi.  Framlegðarhlutfall samstæðunnar lækkaði um 0,4 prósentustig á milli júnímánaða 2016 og 2017,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×