Fótbolti

Beckham í frægðarhöll PSG

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
David Beckham.
David Beckham. Vísir/Getty
Franska stórliðið Paris Saint-Germain afhjúpaði á dögunum nýja og uppfærða heimasíðu félagsins. Á sama tíma komu þeir upp glænýrri frægðarhöll félagsins þar sem þeir heiðra sínar fyrrum hetjur.

Á listann komast menn eins og Zlatan Ibrahimovic og Ronaldinho, sem voru goðsagnir hjá franska félaginu, en einnig Englendingurinn David Beckham sem kom aðeins við sögu í tíu deildarleikjum fyrir PSG.

Beckham, sem þekktastur er fyrir að spila fyrir Manchester United og Real Madrid, var hjá franska félaginu í fjóra mánuði, frá 31. janúar til maí 2013 þegar hann tilkynnti að hann væri hættur í fótbolta. Beckham var gerður að fyrirliða liðsins fyrir síðasta leik hans og fékk heiðursskiptingu á 80. mínútu.

Englendingurinn sigursæli náði ekki að skora mark fyrir PSG, byrjaði aðeins tvo deildarleiki og fékk einu sinni að líta rauða spjaldið. Frönsku risarnir líta þó á hann sem mikilvægan hlekk í því að koma félaginu aftur á meðal þeirra bestu og hann var í liðinu þegar það vann sinn fyrsta Frakklandsmeistaratitilinn í 19 ár. 

PSG er sigursælasta lið Frakklands á síðustu árum, unnu frönsku deildina fjögur tímabil frá 2012 til 2016, en misstu Frakklandsmeistaratitilinn til Mónakó á síðasta tímabili. 

Beckham er í góðra manna hópi í frægðarhöll PSG.Mynd/PSG

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×