Erlent

Simone Veil verður grafin í Pantheon í París

Atli Ísleifsson skrifar
Simone Veil er einna frægust fyrir að hafa í ráðherratíð sinni borið ábyrgð á að gera fóstureyðingar í Frakklandi frjálsar árið 1975.
Simone Veil er einna frægust fyrir að hafa í ráðherratíð sinni borið ábyrgð á að gera fóstureyðingar í Frakklandi frjálsar árið 1975. Vísir/AFP
Franska stjórnmálakonan Simone Veil sem lést þann 30. júní síðastliðinn verður grafin í Pantheon í París. Frá þessu greindi Emmanuel Macron Frakklandsforseti í dag.

Veil verður einungis fimmta konan sem grafin er í Pantheon í París þar sem margir af merkustu Frökkum sögunnar eru grafnir.

Veil var lögfræðingur og stjórnmálakona sem starfaði meðal annars sem heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Valéry Giscard d'Estaing á áttunda áratugnum. Hún er einna frægust fyrir að hafa í ráðherratíð sinni borið ábyrgð á að gera fóstureyðingar í Frakklandi frjálsar árið 1975.

Veil var þingmaður á Evrópuþinginu fyrir Frakka á árunum 1979 til 1993 og jafnframt fyrsti forseti Evrópuþingsins 1979 til 1982. Þá gegndi hún aftur embætti heilbrigðisráðherra á árunum 1993 til 1995.

Meðal þeirra Frakka sem eru jarðsettir í Pantheon eru Voltaire, Jean-Jacques Rousseau, Victor Hugo, Émile Zola, Jean Monnet, Marie og Pierre Curie og Alexandre Dumas.

Bygging Pantheon í París hófst árið 1758 og er hana að finna í latneska hverfi borgarinnar. Upphaflega var um kirkju að ræða en í seinni tíð hefur byggingin fyrst og fremst gegnt hlutverki grafhýsis fyrir merka Frakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×