Innlent

Nýi vagninn á göturnar á næstu dögum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lena Margrét segist vera í skýjunum með sigurinn.
Lena Margrét segist vera í skýjunum með sigurinn.
Femínistavagninn svokallaði sem bar sigur úr býtum í hönnunarkeppni Strætó í gærkvöldi er væntanlegur á götur úti á næstu dögum, að sögn Guðmundar H. Helgasonar, markaðs- og upplýsingafulltrúa Strætó. Vagninn mun skiptast á leiðum og því rúnta um allar götur bæjarins.

Lena Margrét Aradóttir byggingarfræðingur er hönnuður vagnsins en hún segist í skýjunum með sigurinn. „Þetta var voðalega spontant allt saman. Vinnufélagar mínir fóru út í hádegismat en ég varð eftir í vinnunni og datt þetta þá í hug og byrjaði að vinna í þessu,“ segir hún í samtali við Vísi.

Framan á vagninum stendur KÞBAVD sem er skammstöfun á frasanum „konur þurfa bara að vera duglegri“ en um er að ræða ádeilu í jafnræðisumræðunni og varð til inni í Facebook-hóp sem fjölmargir femínistar eru meðlimir í.

„Ég setti mynd inn á þessa Facebook grúppu og bað fólk um að hjálpa mér við að finna fleiri frasa á vagninn. Svo sendi ég myndina inn í hönnunarkeppnina,“ segir Lena. Hún hafi þó aldrei búist við svo góðum viðbrögðum.

„Þetta fór algjörlega fram úr björtustu vonum og ef ég hefði vitað að fólk myndi taka svona vel í þetta hefði ég eytt miklu meira púðri í þessa mynd. En núna er ég bara í sæluvímu yfir sigrinum.“

Stöð 2 hitti Lenu Margréti í gær, nokkrum klukkstundum áður en sigurinn varð vís, en mjótt var á munum á milli skátavagnsins og femínistavagnsins, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.


Tengdar fréttir

Hönnuðir vagnanna segja að keppnin sé æsispennandi

Skátavagn og femínistavagn keppa nú um fyrsta sætið í hönnunarkeppni Strætó en í kvöld kemur í ljós hvor vagninn mun keyra um götur Reykjavíkur í haust. Hönnuðir vagnanna segja að keppnin sé æsispennandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×