Erlent

Rútuslysið í Bæjaralandi: Flestir farþega rútunnar eldri borgarar

Atli Ísleifsson skrifar
Þyrlur og sjúkrabílar voru sendir á vettvang eftir slysið og var hraðbrautinni lokað í báðar áttir.
Þyrlur og sjúkrabílar voru sendir á vettvang eftir slysið og var hraðbrautinni lokað í báðar áttir. Vísir/AFP
Óttast er að átján manns hafi látið lífið eftir árekstur rútu og vörubíls á þýskri hraðbraut nálægt bænum Münchberg í Bæjaralandi í morgun.

Slysið varð klukkan sjö að staðartíma þegar rútan, sem keyrði á A9-hraðbrautinni í átt að Nürnberg, rakst á vörubíl og varð alelda.

Talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar segir að fjölmargir hafi látið lífið, þó að ekkert komi fram um fjölda látinna. Lögregla hefur þó áður sagt að átján sé saknað eftir slysið.

Süddeutsche Zeitung  segir að rútan hafi verið á leið frá Sachsen í austurhluta Þýskalands og að flestir farþeganna um borð hafi verið eldri borgarar. Alls hafi 46 farþegar og tveir bílstjórar verið um borð í rútunni.

Þyrlur og sjúkrabílar voru sendir á vettvang eftir slysið og var hraðbrautinni lokað í báðar áttir.

Mannskæðasta rútuslysið

Haft er eftir Steffen Seibert, talsmanni Angelu Merkel Þýskalandskanslara, að hugur hennar sé hjá fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra.

Sé það svo að átján manns hafi látist í slysinu er um mannskæðasta rútuslys í sögu Þýskalands að ræða. Þrettán manns létust þegar rúta fór af veginum í Sachsen-Anhalt í júní 2007.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×