Erlent

Kristilegir demókratar í Þýskalandi kynna stefnumálin

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel, Þýskalandskanslari og leiðtogi CDU, og Horst Seehofer, leiðtogi CSU, kynntu stefnumál flokkanna í morgun.
Angela Merkel, Þýskalandskanslari og leiðtogi CDU, og Horst Seehofer, leiðtogi CSU, kynntu stefnumál flokkanna í morgun. Vísir/AFP
Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, og systurflokkurinn í Bæjaralandi (CSU), kynntu í morgun stefnuskrá sína fyrir þingkosningarnar sem fram fara í landinu í september.

Þýski ríkisfjölmiðillinn ARD greinir frá því að þrjú mikilvægustu atriði stefnuskrárinnar gangi út á að fjölga lögreglumönnum um 15 þúsund, fjölga íbúðum og draga úr atvinnuleysi.

Kristilegir demókratar ætla sér einnig að lækka skatta, en ólíkt Jafnaðarmannaflokknum vilja Kristilegir demókratar ekki auka skattbyrði hátekjufólks.

CDU og CSU hafa deilt um málefni flóttafólks og innflytjenda síðustu misserin og hefur CSU lagt áherslu á að Þýskaland taki að hámarki á móti 200 þúsund flóttamönnum á ári. Það rataði hins vegar ekki inn í sameiginlega stefnuskrá flokkanna, heldur er þess í stað að finna í sérstakri Bæjaralandsáætlun flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×