Erlent

Átta særðust í skotárás við mosku í Frakklandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað í borginni Avignon í suðurhluta Frakklands.
Árásin átti sér stað í borginni Avignon í suðurhluta Frakklands. Google Maps
Átta eru særðir eftir að tveir menn hófu skothríð við mosku í Avignon í Frakklandi í gærkvöldi. Talið er að árásin tengist unglingaerjum. BBC greinir frá.

Árásin átti sér stað um 22:30 að staðartíma er fólk yfirgaf Arrahma-moskuna í Avignon eftir bænahald í gærkvöldi. Hinir grunuðu, sem sagðir eru hafa beitt skammbyssu og riffli, mættu á staðinn í bíl af tegundinni Renault Clio áður en þeir hófu skothríð.

Lögregla segir ekki rannsaka árásina sem hryðuverk. Fjórir særðust fyrir utan moskuna. Þá særðist einnig fjögurra manna fjölskylda, þar á meðal sjö ára stúlka, vegna sprengjubrota sem bárust inn í íbúð þeirra úr árásinni.

Saksóknari í Frakklandi sagði árásina ekki tengda hryðjuverkum. „Það að hún átti sér stað á götu við trúarlega stofnun var árásinni ótengt,“ sagði saksóknarinn. Talið er að árásin tengist erjum á milli unglinga á svæðinu.

Á fimmtudag var maður handtekinn við að reyna að aka bíl á hóp fólks fyrir framan mosku í París. Enginn særðist við tilræðið.

Viðbúnaðarstig í Frakklandi er enn hátt í kjölfar árásar á lögreglumann í París í apríl og fleiri hryðjuverkaárása í landinu síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×