Innlent

Telur að umferðin verði mikil allar helgar í sumar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan telur að mikil umferð verði allar helgar sumarsins.
Lögreglan telur að mikil umferð verði allar helgar sumarsins. Vísir/Eyþór
Allt gekk áfallalaust fyrir sig í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu um helgina, sem er fyrsta alvöru ferðahelgin sem hægt er að tala um. Þetta segir Arnþrúður María Felixdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Helgin, sem var að líða, er á meðal þeirra sem lögreglan segir að sé mikil ferðahelgi. Nýliðin helgi og Verslunarmannahelgin séu þær stærstu á sumrin og þá megi búast við mikilli umferð.



Mikil umferð allar helgar í sumar

Ómar Smári Ármannsson, yfirlögregluþjónn, segir þó að ákveðin þróun hafi átt sér stað á síðustu áratugum í þá áttina að aukin umferð er um flestar helgar sumarsins frá lok júní. „Nú er nánast hver helgi sambærileg,“ segir Ómar. Hann telur rétt að vara við því að fólk megi búast við mikilli umferð þegar það fer af stað í frí á föstudögum. Lögreglan telur að mikil umferð verði allar helgar það sem eftir lifi sumars.



Þung umferð líka kostur

Ómar Smári brýnir fyrir ferðalöngum að aka á löglegum hraða. „Það liggur engum lífið á,“ segir Ómar sem segir þetta einungis vera spurningu um einhverjar mínútur. „Það komast allir á leiðarenda ef þeir passa sig bara,“ segir yfirlögregluþjónn sem bætir við að þung umferð sé einnig kostur því upplýsingar um slysatíðni leiði í ljós að þegar hægist á umferðinni minnki líkur á slysum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×