Erlent

Vinátta í verki komin yfir 30 milljónir króna

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Þorpið Nuugaatsiaq
Þorpið Nuugaatsiaq
Landssöfnunin „Vinátta í verki,” sem hrundið var af stað vegna hamfaranna á Grænlandi, gengur framar öllum vonum skipuleggjenda. Á tólf dögum hafa safnast vel yfir þrjátíu milljónir króna með framlögum frá þúsundum einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka.

Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq aðfaranótt 18. júní. Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands hefur nú lýst því yfir að þorpið verði mannlaust í að minnsta kosti eitt ár. Grunnskóli þorpsins, rafstöðin og verslunin voru meðal þeirra bygginga sem aldan hrifsaði til sín. Íbúarnir, sem voru innan við hundrað, eru flestir í Uummannaq sem er fjórtán hundruð manna bær nálægt Nuugaatsiaq.

Mánudaginn 19. júní tóku Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn höndum saman og hófu landssöfnunina „Vinátta í verki.” Þess ber að geta að öll framlög renna óskipt til Grænlands.

Vinátta í verki hefur slegið öll fyrri met í söfnunum Hjálparstarfs kirkjunnar af þessari gerð en markmiðið er að safna fimmtíu milljónum króna.

Hæsta framlagið til landssöfnunarinnar er frá Reykjavíkurborg, eða fjórar milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×