Erlent

Skotárás í New York: Sendi tölvupóst á dagblað áður en hann hóf árásina

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Vísir/Getty
Maðurinn sem myrti lækni og særði sex aðra þegar hann hóf skotárás á Bronx-Lebanon sjúkrahúsinu í New York í gær hafði sent tölvupóst á dagblaðið New York Daily News áður en árásin átti sér stað. Frá þessu greinir blaðið sjálft í dag og birti skjáskot af tölvupóstinum.

Árásarmaðurinn hét Henry Bello en hann var íklæddur hvítum læknaslopp þegar hann fór upp tvær hæðir spítalans, hóf skothríð áður en hann reyndi að kveikja í sjálfum sér áður en hann loks skaut sjálfan sig og lést.

Læknirinn sem Bello myrti hét Tracy Sin-Yee Tam og var 32 ára gömul. Sex aðrir eru særðir, þar af fimm alvarlega.

Í tölvupósti Bello til New York Daily News segir að sjúkrahúsyfirvöld Bronx-Lebanon hafi eyðilagt starfsferil hans með því að koma í veg fyrir að hann fengi leyfi til að starfa sem læknir í New York ríki. Bello lærði til læknis í Samveldinu Dóminíku í Karíbahafinu.

„Fyrst var mér sagt að það væri því ég héldi mér fyrir sjálfan mig. Svo var það vegna deilna við hjúkrunarfræðing,“ segir í bréfinu.

Hann sagði að hann hafi verið sakaður um að hóta samstarfsmanni og að þær ásakanir væru ekki á rökum reistar. Bréfið virtist ekki gefa til kynna að hann ætlaði sér að beita neinu ofbeldi.

Bello var gert að láta af störfum á Bronx-Lebanon árið 2015 vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Samkvæmt frétt The Guardian var hann handtekinn árið 2004 eftir að 23 ára kona sakaði hann um kynferðisofbeldi. Hann var aftur handtekinn árið 2009 eftir að tvær konur kærðu hann fyrir kynferðislega áreitni eftir að hann reyndi að horfa undir pils þeirra með spegli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×