Erlent

Ban Ki-moon sameinast áhrifahópi fyrrum leiðtoga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ban Ki-moon er nýr meðlimur öldungahóps sem beitir sér fyrir friði og mannréttindum í heiminum.
Ban Ki-moon er nýr meðlimur öldungahóps sem beitir sér fyrir friði og mannréttindum í heiminum. visir/getty
Ban Ki-moon, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er nýr meðlimur í hópi fyrrum þjóðarleiðtoga og áhrifafólks sem kallar sig öldungahópinn eða „The Elders“.

Sjálfur segir Ban Ki-moon að það sé honum heiður að fá að starfa með þessum virðulega hópi. Hann hafi fylgst með honum að störfum í áraraðir með mikilli aðdáun. Þá segir Ban Ki-moon það vera sérstaklega ánægjulegt að standa við hlið forvera síns hjá Sameinuðu þjóðunum, Kofi Annan. Hann segir Sameinuðu þjóðirnar og áhrifahópinn eiga margt sameinilegt. Hóparnir brenni fyrir réttlæti, samstöðu, friði og mannréttindum.

Kofi Annan segir að Ban Ki-moon komi með gagnlega sýn á starfið í ljósi reynslunnar af hnattrænni forystu.

Alþjóðleg samvinna frumskilyrði fyrir árangri

Um embættistíð Ban Ki-moon hjá Sameinuðu Þjóðunum segir Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hann hafa verið algjöran forvígismann á sviði loftslagsmála, sjálfbærrar þróunar og kynjajafnréttis. Hún segist hlakka til að vinna með honum að því að styrkja alþjóðlega samvinnu sem sé frumskilyrði fyrir frekari árangri.

Ætla að fjalla um erfið mál

Nelson Mandela stofnaði hópinn sem beitir sér fyrir friði og mannréttindum í heiminum. Á heimasíðunni kemur fram að hópurinn hafi það að markmiði að vera hugrakkur og hyggjast meðlimirnir tala umbúðalaust um erfið málefni.

Beina spjótum sínum að Trump

Hópurinn hefur meðal annars gagnrýnt Donald Trump, Bandaríkjaforseta fyrir að neita að axla þá ábyrgð sem hann ætti að bera í málefnum sem varða loftslagsbreytingar og Parísarsamkomulagið.

Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands og fyrrum framkvæmdastjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, varaði Bandaríkin við þessari ákvörðun því axli þau ekki ábyrgð séu þau með því að segja sig úr lögum við alþjóðasamfélagið. Hún horfir ekki síst til fátækra heimshluta og samfélaga sem kljást við vandamál sem hljótast af hnattrænni hlýnun.

Öldungahópurinn ítrekar, með starfseminni, samvinnu í alþjóðlegum málefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×