Innlent

Fangageymslur fullar og mikill erill

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/KolbeinnTumi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Allar fangageymslur við Hverfisgötu voru fullar og þurfti að vista einstaklinga í Hafnarfirði. Alls gistu fjórtán aðilar hjá lögreglunni og var mikið um að vera vegna ölvunar. Leigubílstjórar komu með tvo ofurölvi aðila í port lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu.

Um var að ræða erlendan karl og konu en hvorugt þeirra var með skilríki né gátu þau tjáð sig vegna ölvunar, samkvæmt dagbók lögreglu.

Þá var ung kona í annarlegu ástandi handtekinn við Bárugötu í nótt. Lögreglan var ítrekað búin að hafa afskipti af konunni vegna ástands hennar.

Skömmu eftir klukkan tíu í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um bíl sem ekið var á gangstéttum við Ægissíðu. Ökumaður bílsins hafði tjónað bílinn og var stopp þegar lögregluþjónar komu á vettvang. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Auk hans voru nokkrir til viðbótar grunaður um akstur undir áhrifum.

Einn maður er grunaður um brot á vopnalögum eftir að lögreglan hafði afskipti af honum á bar í miðborginni. Lögreglan lagði hald á hnúajárn. Þar að auki var maður handtekinn fyrir að kýla mann í Hafnarfirði og er hann einnig grunaður um ofbeldi gegn opinberum starfsmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×