Erlent

Duterte vill meiri tíma til að berjast við ISIS

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Duterte ætlar þó ekki að útrýma ISIS sjálfur með þessari skammbyssu. Hún og 2.999 aðrar voru afhentar hermönnum í Maníla í gær.
Duterte ætlar þó ekki að útrýma ISIS sjálfur með þessari skammbyssu. Hún og 2.999 aðrar voru afhentar hermönnum í Maníla í gær. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, bað þing ríkisins í gær um að framlengja gildistíma herlaga á eyjunni Mindanao. Vill forsetinn að það sé gert svo að her ríkisins hafi nægan tíma til þess að útrýma hersveitum hryðjuverkasamtakanna ISIS sem hafa hreiðrað um sig í borginni Marawi.

„Helsti tilgangur framlengingarinnar væri að leyfa hermönnum okkar að halda áfram aðgerðum sínum án þess að þeir þurfi að hafa áhyggjur af því að þeir séu að falla á tíma. Þannig myndu þeir geta einbeitt sér alfarið að frelsun Marawi og endurbyggingu borgarinnar,“ sagði Ernesto Abella, talsmaður forsetans, er hann las bréf forsetans fyrir þingmenn.

Stríðsástand hefur ríkt í Marawi í nærri tvo mánuði eða allt frá því að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Maute, er hafa svarið ISIS hollustu og hafa áður barist við filippseyska herinn, hófu skothríð á lögreglu í hverfinu Basak Malutlut í Marawi aðfaranótt 23. maí síðastliðins. Greindu þarlendir fjölmiðlar frá því að vígamennirnir hafi tekið filipps­eyska fánann niður af Amai Pakpak-sjúkrahúsinu og skipt honum út fyrir svartan og hvítan fána Íslamska ríkisins.

Reuters greinir frá því að síðan þá hafi her ríkisins kljáðst við ISIS-liða á landi en jafnframt beitt loftárásum og sprengjuvopnum. Samkvæmt opinberri tölfræði frá filippseyska ríkinu hafa 413 skæruliðar fallið í átökunum, 98 filippseyskir hermenn og 45 almennir borgarar.

Ekki er svo komið að liðsmenn hins upprunalega ISIS séu farnir að flykkjast til Marawi frá Mið-Austurlöndum heldur er um að ræða fern hryðjuverkasamtök sem hafa svarið ISIS hollustu og aðhyllast sömu hugmyndafræði. Eru það Maute, Abu Sayyaf, BIFF og Ansar Khalifa.

Samkvæmt Long War Journal er samanlagður styrkur hópanna um 500 hermenn. Þar af er rúmur helmingur meðlimur Maute-samtakanna, alls 300. Sextíu berjast fyrir Abu Sayyaf og fjörutíu fyrir BIGG og Ansar Khalifa hvor um sig.

Reuters greindi frá því í gær að skæruliðar reyndu nú að verja svæði sitt í helsta verslunarhverfi borgarinnar. Það væri þó ekkert nema rústir einar eftir linnulausar sprengjuárásir hersins. Angraði það borgarbúa mjög sem margir hverjir væru nú heimilis- og atvinnulausir.

Stjórnarandstæðingar eru þó ekki hrifnir af bón forsetans um framlengingu á gildistíma herlaga á Mindanao, en eyjan er álíka stór og Ísland. Samkvæmt filippseyskum lögum skal gildistími laganna vera sextíu dagar en Duterte vill framlengja um sextíu daga til viðbótar. Til þess þarf samþykki þingsins.

Antonio Trillanes, öldungadeildarþingmaður og einn helsti andstæðingur Dutertes, sagði bón forsetans til marks um ævintýralega mikla misbeitingu valds. „Ég hef áður varað við alræðisstefnu Dutertes og hér sannast orð mín enn á ný,“ segir í tilkynningu sem Trillanes sendi frá sér í gær.

Reuters segir herlög hafa lengi þótt viðkvæmt mál á Filippseyjum en þau heimila miklar persónunjósnir, handtökur án tilskipana og auka jafnframt vald lögreglunnar. Segir Reuters herlög vekja upp minningar af ógnarstjórn einræðisherrans Ferdinands Marcos á áttunda áratugnum sem hefur verið sakaður um að ýkja ógnir við öryggi landsins til að viðhalda herlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×