Innlent

Skoða ókeypis námsgögn í Kópavogi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Sífellt fleiri sveitafélög eru að samþykkja að veita grunnskólabörnum ókeypis námsgögn. Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt þetta og Kópavogsbær ætlar að skoða kostnaðinn.

Nemendur fjölmargra grunnskóla fá ókeypis námsgögn í haust þar sem vaxandi fjöldi sveitafélaga hefur ákveðið að gera þau ritföng sem foreldrar hafa hingað til þurft að kaupa gjaldfrjáls.

Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti í gær að veita grunnskólabörnum nauðsynleg námsgögn ókeypis og bæjarráð Kópavogs samþykkti einnig að fela menntasviði að kanna kostnaðinn við að greiða námsgögn fyrir öll börn í bæjarfélaginu. Ísafjörður reið á vaðið með þetta fyrirkomulag fyrir nokkrum árum og Sandgerði fylgdi í fyrra.

Þá verður þetta einnig gert í Reykjanesbæ, Snæfellsbæ, Borgarbyggð og Garði í haust.

Bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir að mikill samfélagslegur ávinningur sé af fyrirkomulaginu þar sem sveitafélögin geta gert hagkvæmari innkaup í formi magnkaupa.

„Í grunnskólum Mosfellsbæjar eru um 1.650 nemendur og við erum að reikna með að kostnaður á hvern nemanda sé um 5.000 krónur. Sem þýðir að þetta eru rúmar átta milljónir fyrir Mosfellsbæ. En við höfum líka ákveðið að fara í svokallað örútboð innan rammasamnings Ríkiskaupa og vonumst þannig til að fá ennþá betra verð," segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Hann segir að kostnaðurinn við þetta eigi að rúmast innan áætlunar skólanna en það verður endurskoðað við níu mánaða uppgjör. Ef upp á vantar verður viðbótarfjármagni veitt við verkefnið.Þá segir hann að þetta muni vonandi jafna stöðu þeirra sem sækja skóla í Mosfellsbæ.

„Auðvitað er það hluti af þessu. Að jafna stöðu allra til að sækja skóla. Auðvitað er hagur fjölskyldna misjafn. Þetta verður örugglega góð búbót fyrir marga og þá sérstaklega fyrir þá tekjulægri," segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×