Innlent

Lægðagangur og leiðindi í kortunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Veðurspáin í hádeginu í dag er blaut - nema þá helst á Norðausturlandi.
Veðurspáin í hádeginu í dag er blaut - nema þá helst á Norðausturlandi. Veðurstofa Íslands
Leiðindaveður er nú á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi rigningu og nokkuð stífri golu. Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir útlit fyrir að leiðindin haldi áfram, að minnsta kosti út næstu viku.

„Það rignir víða um land í dag en skásta verðið er á Norðausturlandi, það er hlýjast og sáralítil úrkoma þar,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Þá er spáð skúrum um land allt á morgun en útlit er fyrir töluvert blauta helgi á landsvísu, þó með hléum.

Aðspurður hvort haustlægð sé hreinlega í kortunum segir Haraldur að vissulega sé von á lægðagangi.

„Haustlægð er nokkuð sterkt til orða tekið, svona í júlí, en það má segja að eftir helgina sé óneitanlega verið að spá einhverjum lægðagangi og útlit fyrir vætutíð fyrripart vikunnar.“

Þá er gert ráð fyrir að hiti haldist svipaður næstu daga en engum sérstökum hlýindum er spáð í bráð.

„Já, það eru hálfgerð leiðindi framundan,“ segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×