Enski boltinn

Zlatan Ibrahimovic: Það er von á risastórri tilkynningu frá mér á næstunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic myndar sig með Evrópudeildarbikarnum.
Zlatan Ibrahimovic myndar sig með Evrópudeildarbikarnum. Vísir/Getty
Framtíð Zlatan Ibrahimovic gæti skýrst á næstunni en sænski framherjinn ætlar að láta heiminn vita af því bráðum hvað tekur við hjá honum.

Manchester United átti möguleika á að halda Zlatan Ibrahimovic en ákvað að gera það ekki. Zlatan átti mjög tímabil með United en sleit krossband undir lok tímabilsins og verður því að minnsta kosti frá keppni helminginn af komandi tímabili.

Þessi 35 ára gamli framherji fór í aðgerð í maí og hefur verið í endurhæfingu hjá Manchester United.

Fréttir bárust af því á dögunum að svo gæti vel farið að Manchester United myndi bjóða honum annan samning en það er líka vitað af áhuga AC Milan og liða í Bandaríkjunum.

Það fylgir þó sögunni að United myndi bara bjóða honum stuttan samning þegar félagið hefði sönnun fyrir því að hann væri orðinn góður af hnémeiðslunum.

United er búið að kaupa Romelo Lukaku frá Everton og hefur því í raun fundið sér eftirmann Zlatans.

Ibrahimovic skoraði 28 mörk í öllum keppnum fyrir Manchester United og þau hefði getað orðið fleiri hefði hann ekki slitið krossband í Evrópudeildarleik á móti Anderlecht í apríl.

Zlatan Ibrahimovic fór að hitta umboðsmann sinn Mino Raiola í Manchester í gær og eftir það gaf hann það úr að væri von á risastórri tilkynningu frá honum á næstunni.

„Það mun koma risastór tilkynning frá mér bráðum, þetta verður risavaxið,“ sagði Zlatan Ibrahimovic við ljósmyndara sem biðu eftir honum samkvæmt frétt ESPN.

BBC segir líka frá því að bæði Los Angeles liðin, LA Galaxy og Los Angeles FC séu spennt fyrir því að fá Svíann til síns fari svo að hann hætti í evrópska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×