Enski boltinn

Spilar ekki á meðan glugginn er opinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Lemina vill komast frá Wolves en Úlfarnir vilja fá pening fyrir hann.
Mario Lemina vill komast frá Wolves en Úlfarnir vilja fá pening fyrir hann. Getty/Carl Recine

Miðjumaður Úlfanna fær ekki ekki spila aftur með liði sínu í ensku úrvalsdeildinni fyrr en leikmannaglugginn lokar. Þetta segir knattspyrnustjórinn hans Vitor Pereira.

Hinn 31 árs gamli Mario Lemina vill komast í burtu frá félaginu og bað um að sleppa við það að spila í 3-0 tapinu á móti Newcastle síðastliðinn miðvikudag.

Hann er landsliðsmaður Gabon og þykir öflugur leikmaður.

Lemina hefur síðan beðið knattspyrnustjóra sinn afsökunar sem og alla liðsfélaga sína.

Wolves vill fá fimm milljónir punda fyrir Lemina sem kom til liðsins frá Southampton fyrir tveimur árum síðan. Sádi-arabíska félagið Al-Shabab vildi hins vegar fá hann frítt en það kom auðvitað ekki til greina hjá forráðamönnum Wolves.

Úlfarnir eru í sautjánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Hann mun ekki spila fyrr en leikmannaglugginn lokar. Við sjáum síðan til hvort hann sé þá enn leikmaður í mínu liði,“ sagði Vitor Pereira eftir tap á móti Chelsea í gær. Breska ríkisútvarpið segir frá.

„Ef hann verður enn okkar leikmaður þá mun ég leysa þetta vandamál. Hann er góður leikmaður en ef hann fer frá okkur þá er hann ekki mitt vandamál lengur,“ sagði Pereira.

„Ég vil ekki hafa hjá mér leikmann með efasemdir. Ég get ekki spilað leikmanni sem er ekki viss um að hann vilji vera hér. Ég vil að leikmennirnir mínir séu hér af fullum hug,“ sagði Pereira.

„Hann er að æfa en hugur hans er ekki hér af því að hann vill komast annað. Ég verð að vera hreinskilinn og segja satt frá. Nú bíðum við eftir því að glugginn loki og svo sjáum við til,“ sagði Pereira.

Leikmannglugginn lokar klukkan 23.00 mánudaginn 3. febrúar. Wolves á eftir að mæta Arsenal og Aston Villa þangað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×