Innlent

Hjúkrunarfræðingum þarf að fjölga um 130

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala.
Landspítalinn þarf 100-130 hjúkrunarfræðinga til að geta mannað stöður eins og þarf, segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og staðgengill forstjóra Landspítalans. Stjórnendur spítalans telja ástandið erfitt en viðráðanlegt.

„Það er ansi þunnt smurt, sumarleyfi ofan í það að vera ekki með fulla mönnun fyrir. Það er heilmikið púsluspil,“ segir Sigríður. „Síðustu mánuði höfum við áætlað að okkur vanti 100 til 130 hjúkrunarfræðinga til að geta mannað eins og við myndum vilja miðað við þarfir sjúklinganna,“ bætir hún við.

Sigríður segir gríðarlega marga ferðamenn leita sér þjónustu yfir hásumarið. „Sem gerir það að verkum að þjónusta á Landspítalanum dettur ekki eins mikið niður og hún gerði kannski áður,“ segir Sigríður.

„Yfir hávetur erum við með alla starfsemi í hámarki en á sumrin dregur úr til dæmis aðgerðum en þá fáum við mjög mikið álag af ferðamönnum. Það er kannski annars eðlis þannig að álagið á bráðamóttökunni okkar hefur verið mjög mikið. Ferðamenn leita á bráðamóttöku með eitthvað sem þeir myndu ef til vill leita með til síns heimilislæknis heima hjá sér. Það eykur álag á starfsemina og það er mjög mikil áskorun að ná að sinna því öllu,“ segir hún.

Tekist hefur að draga úr álagi með því að fresta ýmissi þjónustu yfir sumarið. „Það gerist á hverju einasta sumri. Það er margt sem kemur til. Það er venjulega ekki verið að framkvæma sumar meðferðir nema í bráðatilfellum yfir hásumar. Við erum að fara inn í þann tíma ársins þar sem við erum með mestan samdrátt í starfseminni. Það nær hámarki núna í kringum helgina og fram að verslunarmannahelgi er það mest,“ segir Sigríður. 

Vísir/pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×