Innlent

Færri innbrot á Suðurlandi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Innbrotum í sumarhús á Suðurlandi virðist hafa fækkað. Fréttablaðið/Pjetur
Innbrotum í sumarhús á Suðurlandi virðist hafa fækkað. Fréttablaðið/Pjetur
Innbrotum virðist hafa fækkað til muna á þessu ári miðað við síðasta ár á Suðurlandi. Þann 13. júlí í fyrra var búið að tilkynna 29 innbrot til lögreglunnar á Suðurlandi víðsvegar úr umdæminu. Það sem af er ári hefur verið tilkynnt um 16 innbrot.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn segist ekki hafa tekið sérstaklega út hver staðan sé eingöngu varðandi sumarhús, en honum sýnist hlutfallið þar vera á sama róli, það er töluverð fækkun milli ára. Fréttablaðið greindi frá því í gær að öfug þróun virtist vera á Vesturlandi þar sem átta innbrot hafi átt sér stað í sumarhús í ár, samanborið við eitt í fyrra.

Lögreglan á Suðurlandi hefur undanfarið ár getað stóreflt eftirlit í uppsveitum Árnessýslu og er að öllu jöfnu að minnsta kosti einn bíll sem sinnir því svæði eingöngu. Einnig hefur verið haldið úti eftirliti í Öræfum nú í sumar og síðasta sumar.

„Þannig að við höfum getað eflt löggæslu á svæðinu til muna og vonumst til að fá að halda því fjármagni til framtíðar svo við sjáum áfram svona árangur,“ segir Sveinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×