Sóttvarnarlæknir hefur upplýst lækna á höfuðborgarsvæðinu um einkenni, sem gætu komið upp, vegna sýkinga af völdum saurmengunar á ströndum Reykjavíkur. Jafnframt hvetur hann almenning til að vera á varðbergi gagnvart mengun í sjó og við strendur.
Í tilkynningu inn á vef landlæknisembættisins er útskýrt að sýkingarhætta af völdum slíkrar mengunar geti lýst sér á mismunandi hátt eftir því hvaða bakteríur finnast og í hversu miklu magni. Þar kemur fram að saurmengaður sjór og baðvatn geti valdið sýkingum í meltingarvegi sem og í húð ásamt almennum veikindum.
Fólki er einnig ráðlagt að stunda ekki sjóböð að óþörfu ef mengun hefur farið fram úr viðmiðunarmörkum. Þá geti hlutir á ströndum einnig verið mengaðir og því ber að varast snertingu við þá og meðhöndla með varúð. Sérstaklega er tekið fram að mengun i Nauthólsvík hefur ekki farið yfir viðmiðunarmörk á þeim tíma sem bilun í Faxaskjóli hefur staðið.
Biður almenning og lækna að vera á varðbergi gagnvart einkennum af völdum saurmengunar
Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
