Skoðun

Svaraðu nú Benedikt

Bjarnheiður Hallsdóttir og Pétur Óskarsson skrifar
Opið bréf til Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra.

Hæstvirtur ráðherra.

Við sem þessi orð ritum rekum ferðaheildsölufyrirtæki í Þýskalandi sem sérhæfir sig í ferðum til Íslands og ferðaskrifstofu á Íslandi, sem skipuleggur bæði hóp- og einstaklingsferðir fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi. Þessa dagana sitjum við við það verkefni að verðleggja þjónustu okkar fyrir árið 2018. Við erum frekar seint á ferðinni með þetta, höfum dregið þetta verkefni á langinn. Enda er það óvenju flókið og þó höfum við séð ýmislegt á þeim aldarfjórðungi sem við höfum starfað við þetta. Ástæðan fyrir því eru óvissuþættir í rekstrarumhverfinu sem við störfum í. Einkum og sér í lagi er þar um að ræða ofursterkt gengi krónunnar, sem þvingar okkur til að hækka verð á milli ára um tugi prósenta. En eins og það væri ekki nóg, þá hanga fyrirætlanir þínar og ríkisstjórnarinnar um að færa ferðaþjónustuna upp í efsta þrep virðisaukaskattsins þann 1. júlí 2018 eins og fallöxi yfir greininni.

Hvað sem mönnum kann að finnast um þessa fyrirhuguðu hækkun, þá er það auðvitað óásættanlegt með öllu að ekki sé búið að útkljá þetta mál, nú þegar ferðaþjónustan þarf að ganga frá sínum samningum fyrir næsta ár. Við vitum ekki hvað þú þekkir vel til starfsumhverfis alþjóðlegrar ferðaþjónustu – en kaupin gerast þannig á eyrinni, að það þarf að fastsetja verð langt fram í tímann. Verðhækkunum vegna skattahækkana á einstökum áfangastöðum er samkvæmt evrópskum neytendaverndarlögum EKKI hægt að velta út í verðlag á alferðum eftir á. Enginn þingmaður eða ráðherra í ríkisstjórninni hefur tekið undir þessa hugmynd þína að hækka virðisaukaskattinn á miðju árinu 2018, þú ert einn eftir sem ekki hefur dregið í land í þessu máli. Nú þarft þú að svara okkur, svara okkur skýrt og þannig að við getum treyst orðum þínum.

Höfundar eru eigendur Katla Travel og Katla DMI.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×