Viðskipti innlent

Keypti 80 prósenta hlut í Basko fyrir yfir 1,5 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Basko rekur meðal annars verslanir 10-11.
Basko rekur meðal annars verslanir 10-11. Vísir/GVA
Framtakssjóðurinn Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, keypti áttatíu prósenta hlut í Basko í fyrra á rúmlega 1,5 milljarða króna, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi sjóðsins sem Markaðurinn hefur undir höndum. Virði félagsins var þannig metið á tæpa 1,9 milljarða króna í viðskiptunum. Það er 13,5 prósentum lægra en það verð sem Skeljungur hyggst greiða fyrir allt hlutafé í félaginu.

Basko á rekstrarfélag Tíu ellefu hf., Ísland verslun hf. og Imtex ehf., en undir þessi félög heyra meðal annars 10-11 verslanirnar, verslanir Iceland, kaffihús Dunkin Donuts og hamborgarastaðurinn Bad Boys Burg­ers & Grill.

Tilkynnt var um kaup Horns III á áttatíu prósenta hlut í félaginu í lok síðasta sumars, en um var að ræða fyrstu fjárfestingu sjóðsins. Seljendur voru félög tengd stjórnendum Basko og bresku matvörukeðjunni Iceland Foods. Í maí síðastliðnum var síðan greint frá því að olíufélagið Skeljungur hefði í hyggju að kaupa allt hlutafé í Basko. Var þá tekið fram að áætlað kaupverð væri 2,2 milljarðar.

Í ársreikningi Horns III kemur auk þess fram að sjóðurinn hafi í fyrra keypt félögin Hagvagna, Hópbíla og Hvaleyri fyrir rúma 2,3 milljarða króna. Tilkynnt var um kaupin í nóvember í fyrra, en seljendur voru hjónin Gísli J. Friðjónsson og Hafdís Alexandersdóttir.

Hagvagn­ar hafa ann­ast akst­ur á veg­um Strætó, einkum til og frá höfuðborg­ar­svæðinu, en Hóp­bíl­ar er um­svifa­mikið félag í rekstri hópferðabif­reiða.

207 milljóna króna tap varð af rekstri Horns III í fyrra. Hluthafar eru rúmlega þrjátíu talsins en Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi eru stærstir í þeim hópi.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×