Innlent

John Snorri stefnir á topp K2 eftir tíu daga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
John Snorri Sigurjónsson stefnir á að verða fyrsti Íslendingurinn til að ná toppi K2.
John Snorri Sigurjónsson stefnir á að verða fyrsti Íslendingurinn til að ná toppi K2. kári schram
Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson komst í dag upp í þriðju búðir næsthæsta fjalls heims, K2, en hann stefnir á að verða fyrsti Íslendingurinn til að ná toppi fjallsins þann 20. júlí næstkomandi.

Þriðju búðir eru staðsettar neðarlega á svæði sem kallast „Black Pyramid“ en þangað fór John Snorri ásamt göngufélögum sínum í dag til að setja upp tjöld og koma fyrir birgðum áður en lagt verður í hann á toppinn eftir tíu daga.

John Snorri gengur á K2 til styrktar Lífi, styrktarfélagi kvennadeildar Landspítalans, og er fylgst með ferðalaginu á Facebook-síðunni Lífsspor á K2.

„Það var góð tilfinning sem kom yfir mig í dag þar sem ég fann hvernig ég er að sigra fjallið smátt og smátt. Ég notaði tvo súrefniskúta á leið minni upp í búðir 3 en þar stoppuðum í sirka tvo tíma og komum upp tjöldum og birgðum.

Gangan upp er klifur í klettum og ís og því nokkuð erfið yfirferðar. Núna er hópurinn kominn aftur niður í búðir 2 sem kallast "House of Chimney" þar sem við gistum í nótt,“ er haft eftir John Snorra á Facebook-síðu Lífsspors.

Hjördís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Lífs, segir að ferðin í dag hafi mjög líklega verið seinasta ferðin sem farið er í til að undirbúa ferðina á toppinn. Eins og staðan er núna er stefnt á að nýta veðurgluggann í kringum 20. júlí en Hjördís segir það geti þó breyst þar sem þetta fari allt eftir veðri og vindum.

Með John Snorra í för er Kári Schram myndatökumaður sem er að gera alþjóðlega kvikmynd um leiðangurinn. Hann fer þó ekki lengra en í grunnbúðirnar en þá kemur myndavélin sem John Snorri með á höfðinu sér vel þar sem hann fer ofar í fjallið.

Eins og áður segir gengur John Snorri til styrktar Lífi og má heita á hann inni á vefsíðunni Lífsspor.

Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtal við John Snorra úr kvöldfréttum Stöðvar 2 frá því í apríl.


Tengdar fréttir

Fyrsti Íslendingurinn sem fer á K2 lagður af stað í undirbúningsferð á Lhotse

Göngugarpurinn John Snorri Sigurjónsson, sem ætlar að verða fyrsti Íslendingurinn til að klífa K2, er lagður af stað í undirbúningsferð upp fjallið Lhotse í Nepal en hann mun einnig verða fyrsti Íslendingurinn til að toppa það. Hann hefur verið í grunnbúðunum í tæpan mánuð og segir biðina erfiða.

Lagður af stað í grunnbúðir K2

John Snorri Sigurjónsson, sem ætlar að verða fyrsti Íslendingur til að klífa K2, er staddur í Pakistan og leggur af stað í grunnbúðir fjallsins í fyrramálið. Hann er bjartsýnn á að hann nái toppnum en segist stundum vera smeykur þegar hann hugsar um fjallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×