Erlent

Íranar ætla ekki að hætta eldflaugatilraunum sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá eldflaugaskoti Írana á miðvikudaginn.
Frá eldflaugaskoti Írana á miðvikudaginn. Vísir/AFP
Yfirvöld í Íran segjast ekki ætla ekki að hætta eldflaugatilraunum sínum og fordæma auknar refsiaðgerðir Bandaríkjanna. Spenna hefur aukist á milli ríkjanna að undanförnu og báðir aðilar hafa sakaði hina um að haga sér óvarlega í Persaflóa.

Floti Bandaríkjanna segir herskip frá Íran hafa nálgast flugmóðurskip þeirra, USS Nimitz, á miklum hraða og ekki svarað skilaboðum. Þyrla frá Bandaríkjunum skaut viðvörunarskoti að skipum Íran. Íranar segja skip Bandaríkjanna hafa nálgast skip sín óvarlega og skotið viðvörunarskotum að óþörfu.

Sambærilegt atvik kom upp á þriðjudaginn, þar sem báðir aðilar saka hina um bellibrögð.

Til stendur að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undirriti frumvarp sem ætlað er að herða refsiaðgerðir gegn Íran, Norður-Kóreu og Rússlandi. Þar að auki beittu Bandaríkin Íran refsiaðgerðum í gær sem miða að því að hægja á eldflaugatilraunum þeirra. Íranar skutu upp eldflaug á miðvikudaginn og segja tilganginn hafa verið að koma gervihnetti á sporbraut um jörðu.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Íran segir það óásættanlegt.

„Herinn og eldflaugar okkar eru innanríkismál okkar og aðrir hafa ekki rétt á því að grípa inn í eða tjá sig um þau mál,“ sagði Bahram Ghasemi, samkvæmt AFP fréttaveitunni.



Vestrænar ríkisstjórnir gruna Íran um að þróa langdrægar eldflaugar sem geti borið kjarnorkuvopn. Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskaland hafa fordæmt eldflaugaskotið og segja það brjóta gegn samþykktum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Erindreki Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Nikki Haley, lýsti yfir vantrausti Bandaríkjanna gagnvart Íran í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í gær.

„Mikill stuðningur Íran við hryðjuverkahópa sýnir okkur að það er ekki hægt að treysta þeim. Það að Íran er að brjóta skuldbindingar sínar varðandi eldflaugatilraunir sýnir okkur að þeim er ekki treystandi. Eldflaugatilraunin í gær sýnir okkur það eining,“ sagði Haley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×