Erlent

Rússar svara refsiagerðum Bandaríkjamanna í sömu mynt

Kjartan Kjartansson skrifar
Fækka þarf í starfsliði sendiráða Bandaríkjanna í Rússlandi að skipan rússneskra stjórnvalda.
Fækka þarf í starfsliði sendiráða Bandaríkjanna í Rússlandi að skipan rússneskra stjórnvalda. Vísir/EPA
Rússnesk stjórnvöld hafa skipað Bandaríkjamönnum að fækka sendiráðsstarfsmönnum sínum og bannað þeim að nota tilteknar byggingar. Aðgerðirnar eru svar Rússa við refsiaðgerðum sem Barack Obama kom á.

Með kröfu Rússa verður sendiráðslið Bandaríkjamanna nú jafnfjölmennt og Rússa í Bandaríkjunum eftir refsiaðgerðirnar sem Obama kom á skömmu áður en hann lét af embætti.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að refsiaðgerðirnar sem utanríkisráðuneyti Rússlands tilkynnti um í dag feli einnig í sér að lagt verði hald á sumarhús og vöruhús sem bandarískir erindrekar í Rússlandi hafa notað.

Obama bætti í refsiaðgerðir gegn Rússum í janúar vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum í fyrra. Áður höfðu refsiaðgerðir verið í gildi vegna innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014.

Rak Obama rússneska sendiráðsstarfsmenn úr landi og lagði hald á vöruhús og sumarhús rússneskra diplómata.

Óvíst hvort Trump skrifi undir hertar aðgerðir

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti hertar refsiaðgerðir gegn Rússum í gærkvöldi. Donald Trump, forseti, þarf að skrifa undir til að frumvarpið verði að lögum. Óljóst er hvort að hann beiti neitunarvaldi sínu, að sögn Washington Post.

Trump hefur verið andsnúinn frumvarpinu, sér í lagi vegna þess að það kveður á um að forsetinn geti ekki aflétt refsiaðgerðunum án samþykkis þingsins.


Tengdar fréttir

Rússar óánægðir með hertar refsiaðgerðir

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands gefur í skyn að rússnesk stjórnvöld svari í sömu mynt eftir að lægri deild Bandaríkjaþings samþykkti hertar refsiaðgerðir gegn þeim í gær. Óvíst er hvort að Donald Trump forseti beiti neitunarvaldi sínu gegn frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×