Erlent

Norsk stúlka stakk aðra stúlku til bana í verslunarmiðstöð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásin var gerð í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand í gær. Hinnar látnu var minnst með mínútu þögn við opnun verslana þar í morgun.
Árásin var gerð í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand í gær. Hinnar látnu var minnst með mínútu þögn við opnun verslana þar í morgun. Skjáskot/Google Maps
Fimmtán ára gömul norsk stúlka réðst á tvær konur með hníf í verslunarmiðstöð í borginni Kristiansand í suðurhluta Noregs í gær. Eitt fórnarlamba hennar, hin 17 ára Marie Skuland, lést af sárum sínum í gærkvöldi. NRK greinir frá.

Ráðist var á tvær konur í útibúi verslunarkeðjunnar Coops OBS í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í gær en tilkynning barst um árásina um klukkan 17:30 að norskum tíma. Lögregla var komin á vettvang um tólf mínútum síðar og handtók þar 15 ára gamla stúlku.

Skuland lést af sárum sínum nokkrum klukkustundum síðar en hún var sumarstarfsmaður í versluninni.

Hitt fórnarlambið, 23 ára kona, liggur þungt haldin á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló eftir árásina en hún var flutt þangað með sjúkraþyrlu í gærkvöldi. Hún var viðskiptavinur búðarinnar.

Hin fimmtán ára árásarkona er norskur ríkisborgari og hefur áður komið við sögu lögreglu. Hún hafði sloppið af stofnun á vegum barnaverndaryfirvalda, þar sem hún var vistuð, stuttu áður en hún réðst á konurnar tvær í verslunarmiðstöðinni.

Sørlandssenteret opnaði aftur klukkan 10 í morgun að staðartíma en hinnar látnu var minnst með mínútu þögn við opnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×