Fótbolti

Glódís: Náðum kannski ekki nógu góðri stjórn á tilfinningunum eftir Sviss-leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís horfir á eftir boltanum í íslenska markið.
Glódís horfir á eftir boltanum í íslenska markið. vísir/getty
Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir tapið fyrir Austurríki í kvöld.

„Þetta var ótrúlega svekkjandi og ekki það sem við ætluðum okkur. Við ætluðum að enda þetta mót á sigri og fara með hökuna upp og kassann út frá þessu móti. En það gekk ekki í dag,“ sagði Glódís í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leikinn í Rotterdam í kvöld.

Íslenska liðið virtist þjakað af stressi í leiknum í kvöld og náði sér aldrei almennilega á strik.

„Ég veit ekki hvað þetta var. Við vorum kannski þungar eftir þetta svekkelsi. Við komum inn í þetta mót og ætluðum okkur alla leið og þá eru þetta ótrúlega mikil vonbrigði. Við náðum kannski ekki nógu góðri stjórn á tilfinningunum okkar eftir Sviss-leikinn,“ sagði Glódís sem viðurkennir að síðustu dagar, eftir tapið fyrir Sviss á laugardaginn, hafi verið erfiðir.

„Þeir hafa ekki verið alltof erfiðir en þetta hefur kannski meiri áhrif á mann en maður heldur. Ég fann það á sjálfri mér. Ég var ótrúlega svekkt eftir Sviss-leikinn, svo fannst mér ég hafa náð mér upp en síðan var það ekki svoleiðis,“ sagði Glódís.

„Við vorum stressaðar í dag, héldum boltanum illa og vorum eftir á. Þær eru líka með frábært lið og vinna riðilinn. Þær eru með einfalt leikplan og eru góðar í því sem þær gera. Mikið hrós á þær og ég ætla að halda með þeim í þessu móti.“

Íslenska liðið lagði upp með að spila besta varnarleikinn á EM. Það tókst ekki og Glódís segist taka mikla ábyrgð á því sem einn af leiðtogum liðsins.

„Já, ég tek þetta mikið inn á mig og tek mikla ábyrgð á þessu. Þetta var ekki nógu gott. Við eigum ekki að fá á okkur svona mörg mörk. Við ætluðum að gera betur en við munum læra af þessu móti og taka með inn í undankeppni HM,“ sagði Glódís.

„Mér finnst við ekki lélegasta liðið í þessu móti. Við náðum bara ekki að láta hlutina ganga með okkur. Ef við hefðum átt þrjá frábæra leiki hefðum við getað unnið þennan riðil. En við áttum ekki frábæra þrjá leiki og töpuðum. Svona er þetta stundum í fótbolta.“


Tengdar fréttir

Freyr: Liðið höndlaði vonbrigðin eftir laugardaginn mjög illa

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var afar ósáttur með frammistöðuna í 0-3 tapinu fyrir Austurríki í kvöld. Þetta var síðasti leikur Íslands á EM en liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×