Innlent

Frábært veður á K2: Stefnir á toppinn í fyrramálið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
John Snorri í tjaldi sínu í grunnbúðum K2.
John Snorri í tjaldi sínu í grunnbúðum K2. kári schram
John Snorri Sigurjónsson stefnir á topp næsthæsta fjall heims, K2, í fyrramálið. Hann og félagar hans lögðu af stað úr búðum þrjú í búðir fjögur klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma en búðir fjögur eru í 8000 metra hæð.

Að því er fram kemur á Facebook-síðu leiðangursins eru gangan og klifrið í dag á því svæði í fjallinu sem er það hættulegasta en það jákvæða er að veðrið, sem hefur sett strik í reikninginn undanfarna daga, er núna frábært.

Þegar komið er í búðir fjögur ætla John Snorri og hópurinn að hvílast í nokkra tíma áður en haldið er á toppinn í fyrramálið.

„Þó John Snorri sé núna í yfir 7000 metra hæð á leið á topp K2 sem er í 8611 metra hæð þá höldum við okkur ennþá niðri á jörðinni því þetta er svæðið sem erfiðast er yfirferðar,“ segir á Facebook-síðu Lífsspors á K2 en þar má fylgjast með ferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×