Skoðun

Beðið milli vonar og ótta

Agnes M. Sigurðardóttir skrifar
Ég er gestur á jörðinni“ segir í 119. Davíðssálmi. „Við erum gestir og hótel okkar er jörðin“ segir Reykjavíkurskáldið Tómas Guðmundsson í ljóði sínu. Önnur tilvitnunin er rituð fyrir Kristsburð, hin á síðustu öld. Önnur fyrir botni Miðjarðarhafs, hin á eyju norður í höfum. Báðar eru jafn sannar, þóttir gestirnir svokölluðu séu misheppnir með fæðingarstað.

Margir fá ekki lifað í fæðingarlandi sínu vegna ófriðar, óréttlætis eða af öðrum ástæðum. Sumir þeirra hafa leitað til Íslands og beðið um leyfi til að lifa hér og starfa. Saga þeirra er jafnan átakanleg, þar sem fólk hefur flúið hræðilegar aðstæður og valið lífið fram yfir miklar hörmungar og hættur.

Ein þeirra eru feðginin Abrahim Maleki og hin ellefu ára gamla dóttir hans Hanyie. Abrahim er Afgani en fjölskylda hans flúði til Írans, þar sem dóttir hans fæddist. Hún hefur aldrei búið í landi föður síns og á þar enga fjölskyldu. Móðirin yfirgaf þau fyrir tíu árum og barnið hefur engar minningar um hana. Hingað eru feðginin komin í þeirri von að fá alþjóðlega vernd, eftir að hafa verið á flótta um langt skeið. Líkt og aðrir feður vill Abrahim barni sínu aðeins það besta, hann vill að dóttir hans alist upp í friði og öryggi, fái að ganga menntaveginn og verða hamingjusöm í landi sem virðir mannréttindi. Þar sem mannúð og manngæska er innbyggð í þjóðarsálina.

„Í hverju barni sé ég þína mynd“ segir í fallegum jólasálmi. Þessi orð eru í anda frelsarans sem sagði: „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig.“

Ég bið þau sem eru í því vandasama hlutverki að taka ákvarðanir um framtíð þeirra sem hingað leita í neyð sinni, að leyfa Abrahim og Hanyie að eiga hér framtíðarheimili. Við erum öll gestir á hótel jörð. Það hlýtur að vera laust pláss á hótel Íslandi fyrir þau. Sýnum mannúð og tryggjum þeim örugga framtíð.




Skoðun

Sjá meira


×