Viðskipti innlent

Kaupfélag Skagfirðinga kaupir í Árvakri

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Eyþór Arnaldsson og Guðbjörg Matthíasdóttir eiga stærstu hlutina í Árvakri
Eyþór Arnaldsson og Guðbjörg Matthíasdóttir eiga stærstu hlutina í Árvakri
Félagið Íslenskar sjávarafurðir, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hefur bætt við hlut sinn í Árvakri, útgefanda Morgunblaðsins. Félagið á nú 14,15 prósenta hlut í einkahlutafélaginu Þórsmörk, sem er eigandi Árvakurs, en átti áður rúmlega níu prósenta hlut. Félagið er þriðji stærsti eigandi Þórsmerkur.

Þá hefur hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds, fjárfestis, í Þórsmörk minnkað úr 26,62 prósentum í 22,87 prósent.

Hlutafé Árvakurs var aukið um 200 milljónir króna í sumar, en aðeins núverandi eigendur tóku þátt í hlutafjáraukningunni. Var það Kaupfélag Skagfirðinga sem lagði Árvakri til hvað mest fjármagn, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Félag Eyþórs er stærsti einstaki eigandi Þórsmerkur, en félagið fór inn í hluthafahópinn í apríl þegar það keypti eignarhluti útgerðarfélaganna Samherja, Síldarvinnslunnar og Vísis í Þórsmörk. Þá hefur félagið Laugarholt, í eigu hjónanna Þorgeirs Baldurssonar, fyrrverandi forstjóra prentsmiðjunnar Odda, og Rögnu Maríu Gunnarsdóttur, selt hlut sinn í Þórsmörk.

Félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarkonu í Vestmannaeyjum, er næststærsti eigandi Þórsmerkur með 16,5 prósenta hlut og þá á Ísfélag Vestmannaeyja 13,4 prósenta hlut.

Tæplega fimmtíu milljóna króna tap varð af rekstri Árvakurs í fyrra, samanborið við 164 milljóna tap 2015. Tekjur félagsins jukust um níu prósent á árinu og námu 3,6 milljörðum króna, miðað við 3,1 milljarð árið 2015, en gjöld jukust um sex prósent. 


Tengdar fréttir

Ákvörðunin kom á óvart

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að ógilda samruna smásölufélagsins Haga og lyfsölufélagsins Lyfju hafi komið á óvart. Hann segir að íslensk fyrirtæki verði að geta brugðist við aukinni samkeppni. Sameining sé ein leið til að ná fram hagræðingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×