Í fyrsta sinn í tuttugu ár kemst norska kvennalandsliðið í fótbolta ekki upp úr sínum riðli á EM kvenna í fótbolta.
Noregur tapaði í kvöld 1-0 á móti Danmörku en norsku stelpurnar þurftu bæði að treysta á þriggja marka sigur sem og hagstæð úrslit úr hinum leik riðilsins.
Noregur er búið að vera í undanúrslitum á síðustu fjórum Evrópumótum þar af spila tvisvar til úrslita um titilinn á þessum tuttugu árum. Nú fara þær hinsvegar bæði stigalausar og markalausar heim til Noregs.
Dönsku stelpurnar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitunum með þessum sigri en sigurmarkið kom strax á sjöundu mínútu leiksins.
Norsku stelpurnar máttu alls ekki við því að fá á sig mark í upphafi leiks hvað þá að klikka á vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik.
Hin íslensk ættaða María Þórisdóttir lék með norska liðinu í kvöld en hún missti af tapleiknum á móti Belgíu vegna meiðsla.
Markvörður norska liðsins meiddist og það var mikil töf á leiknum. Uppbótartíminn varð því alls tíu mínútur en það nýttist þó ekki norska liðinu til að skora sitt fyrsta mark á Evrópumótinu.
Katrine Veje kom danska liðinu í 1-0 á 7. mínútu með laglegri afgreiðslu og norsku stelpurnar þurftu því að skora fjögur mörk.
Fyrsta skrefið af því hefði verið að nýta víti á 44. mínútu en Stina Lykke Petersen varði þá frá Caroline Hansen.
Norsku stelpur héldu áfram að reyna en þær fengu fleiri færi og skutu meðal annars í slá. Þá var einnig mark dæmt af þeim vegna rangstöðu.
Þetta féll ekki með norsku stelpunum á þessum Evrópumóti og þær eru því á leiðinni heim eins og íslensku stelpurnar.
