„Ástæðan er líklega bara góð veðurspá,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu. „Það er erfitt að skjóta á fjölda en ætli þetta sé ekki eitthvað í kringum þrjú þúsund manns.“
Hann segir að almennt sé mikið að gera á tjaldsvæðinu þegar veður er gott. Hins vegar sé nokkuð óvanalegt að tjaldsvæðið sé orðið fullt fyrir klukkan 22 á föstudagskvöldi. Aðspurður segist hann telja að það muni losna eitthvað um á morgun.
„Það er alltaf einhver hreyfing á fólki. Hér er hópur sem fer á morgun, svo halda margir annað, jafnvel í betra veður og svo framvegis,“ segir Ásgeir. Hann segist ekki geta svarað til um hvernig staðan sé á tjaldsvæðum í kring, en hvetur fólk til þess að hringja á undan sér, svo það komi ekki að lokuðum dyrum.
Líkt og Ásgeir bendir á er veðurspá helgarinnar nokkuð góð, en á norður- og norðausturlandi er búist við allt að 24 stiga hita.


