Laust fyrir kl 17 í gær, þann 19. júlí fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um að maður hefði fallið í Gullfoss. Allt tiltækt viðbragðslið á svæðinu var kallað út ásamt björgunarsveitum á nærsvæðum, sem og þyrlur Landhelgisgæslunnar.
Leitað var að manninum til miðnættis í gærkvöldi. Leit var þá hætt og settir voru upp sjónpóstar á svæðinu til að fylgjast með ánni í nótt. Á tíunda tímanum var leit haldið áfram.
Í tilkynningu segir að lögregla hafi rætt við fjölmarga aðila og voru nokkrir sjónvarvottar sem gátu gefið greinargóða lýsingu á manninum sem fór niður fossinn, en hann sást á tveimur stöðum frá útsýnispöllum.
Lögreglan fann svo bifreið á bifreiðastæðinu við Gullfoss í gærkvöld og var hann tekinn til rannsóknar. Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að um er að ræða erlendan hælisleitanda, sem kom til Íslands fyrir nokkru síðan.
Ennþá er unnið að rannsókn málsins og eru skýrslutökur í gangi vegna þess.
Ekkert bendir til þess að atvikið hafi orðið með saknæmum hætti.