Innlent

Segir ástandið á leigumarkaðnum vera skelfilegt

Ásgeir Erlendsson skrifar
Formaður Samtaka leigjenda segir mjög algengt að leigusalar taki tryggingafé til eigin nota án heimildar og hefur slíkum málið verið vísað til lögreglu. Hann telur að ef virkara eftirlit væri á markaðinum hefðu brot Halldórs Viðars Sanne ekki staðið jafn lengi yfir og raunin varð.

Á undanförnum mánuðum hafa Samtök leigjenda reglulega lýst yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem ríki á leigumarkaði. Skortur sé á íbúðum sem geri leigusölum kleift að óska eftir háu tryggingafé og nokkrum mánuðum í fyrirframgreidda leigu.

Hólmsteinn Brekkan, formaður Samtaka leigjenda, segir ástandið á markaðnum vera skelfilegt og reglulega komi á borð samtakanna mál þar sem leigusalar halda eftir fé án heimildar. „Það er mjög algengt að leigusalar, sérstaklega einstaklingar, þeir halda tryggingafénu þó þeim beri að skila því samkvæmt samningi og lögum. Þá hafa þeir tekið það til eigin nota sem er algerlega óheimilt samkvæmt lögum.

Slík mál, þegar menn hafa dregið það að endurgreiða tryggingafé og hefur verið erfitt að ná því og menn verið með undanskot og annað, þá höfum við vísað því til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar þar sem þetta er lögbrot,“ segir Hólmsteinn.

Hann segir mikilvægt að tryggja rétt leigjenda og telur Hólmsteinn brýnt að koma á fót sérstakri leiguvakt. „Þar sem fólk gæti leitað til með alls konar svona mál. Bæði varðandi samningsgerð og einnig ef einhver vafi er á um fyrirframgreiðslur, tryggingafé og annað.“

Hólmsteinn bendir á að ef virkara eftirlit væri á markaðinum hefðu fjársvik Halldórs Viðars Sanne, sem nýlega var dæmdur í árs fangelsi fyrir svik á leigumarkaði, ekki staðið yfir jafn lengi og raunin varð. „Það er of seint tekið á þessu máli og það er eitt sem hefur valdið því að þetta hefur náð svona langt og það er það að það er ekkert apparat sem heldur utan um leigumarkaðinn á Íslandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×