Innlent

Aldo Viðar Bae dæmdur í eins árs fangelsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aldo Viðar Bae, sem áður hét Halldór Viðar Sanne, er sakaður um að hafa haft fé af fjölda fólks.
Aldo Viðar Bae, sem áður hét Halldór Viðar Sanne, er sakaður um að hafa haft fé af fjölda fólks.
Aldo Viðar Bae, sem áður hét Halldór Viðar Sanne, hefur verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir fjársvik, tilraun til fjársvika og fjárdrátt. Þá var hann dæmdur til að greiða öllum bótakrefjendum, hverjum fyrir sig, 150 þúsund krónur í málskostnað. Honum var einnig gert að greiða samtals 3,6 milljónir króna í skaðabætur.

Aldo, áður Halldór, neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun júlí. Hann hafði þá verið í gæsluvarðhaldi samfleytt frá 28. mars síðastliðnum. Þegar hann kom aftur fyrir dóminn 2. ágúst játaði hann þó brot sín skýlaust og tekið var tillit til þess við sakfellinguna.

Í ákærunni yfir Aldo kemur fram að hann hafi ítrekað gerst milliliður fyrir fólk í leit að húsnæði til leigu. Hafði Aldo tekið íbúðir á leigu og framleigt þær öðrum, stolið undan leigugreiðslum þeirra og greitt aðeins fyrsta mánuðinn til réttra eigenda.

„Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, skýlausrar játningar ákærða og umfangs brotanna er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Skal gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 28. mars sl., koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu,“ segir í dómnum yfir Aldo.

Þá er ákærða gert að greiða allan sakarkostnað verjanda síns. Honum er einnig gert að greiða öllum bótakrefjendum, hverjum fyrir sig, 150 þúsund krónur í málskostnað. Ákærði greiðir einnig þrjár bótakröfur sem nema samtals 3,6 milljónir króna. Þá kemur fram að hann hafi nú þegar endurgreitt einhverjar kröfur ákæruliðanna. 

Fyrst var greint frá umræddum svikum Aldos í Fréttablaðinu í mars en þá sagði Bergljót Snorradóttir farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við hann. Hún kvaðst hafa greitt honum leigu fyrirfram fyrir einbýlishús í Njarðvík sem Aldo átti ekki heldur var sjálfur með í leigu. Í kjölfarið var rætt við fleira folk sem taldi sig hlunnfarið af viðskiptum við Aldo.


Tengdar fréttir

Halldór Viðar Sanne sætir áframhaldandi gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur hefur úrskurðað Halldór Viðar Sanne, dæmdan fjársvikari, í áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. maí næstkomandi. Lögregla rannsakar nú umfangsmikil fjársvik Halldórs en fjölmargir aðilar hafa lagt fram kæru á hendur honum.

Halldór Sanne telur sig hafðan fyrir rangri sök

Halldór Viðar Sanne, dæmdur fjársvikari, segist beittur órétti og röngum sakargiftum. Hann situr í gæsluvarðhaldi grunaður um milljónasvik með því að hafa fé af fólki á leigumarkaði.

Brotahrina sem þurfi að stöðva

Hæstiréttur hefur staðfest að Aldo Viðar Bae, sem áður hét Halldór Viðar Sanne, skuli sæta gæsluvarðhaldi næstu fjórar vikurnar, eða til 15. ágúst næstkomandi, vegna meintra fjársvika og fjárdráttar.

Halldór Viðar Sanne ákærður fyrir fjársvik

Gefin hefur verið út ákæra á hendur Halldóri Viðar Sanne fyrir fjársvik, tilraun til fjársvika og fjárdrátts en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi samfleytt frá 28. mars síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×