Enski boltinn

Dagur Sigurðsson léttur á Twitter: Hlakka til að spila með Wayne Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson og Wayne Rooney.
Dagur Sigurðsson og Wayne Rooney. Vísir/Samsett/Getty
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan og fyrrum landsliðsþjálfari Þýskalands, var alveg tilbúinn að skemmta sér og öðrum aðeins á Twitter þegar hann blandaðist óvænt inn í umræðuna um Everton og Gylfa Þór Sigurðsson.

Sean nokkur er mikill stuðningsmaður Everton og hann var ánægður með þær fréttir að íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson væri að koma á Goodison Park.

Sean leitaði uppi Sigurðsson á Twitter en það eru víst fleiri en einn íslenskur Sigurðsson á netinu og Sean ruglaðist aðeins. Hann taldi sig vera búinn að finna þann eina og sanna en svo var ekki raunin.

Í stað þessa að finna Gylfa þá fann hann Dag Sigurðsson sem er nú á fullu að undirbúa japanska handboltalandsliðið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Everton-stuðningsmaðurinn sendi Dag skilaboð og bauð hann velkominn til Everton.

Dagur er mikill húmoristi og ákvað að bregða á leik. Hann svaraði Sean: „Takk félagi, hlakka til að spila með Wayne Rooney.“

Dagur valdi handboltann á sínum tíma en hann var einnig unglingalandsliðsmaður í fótbolta, lék sjö leiki fyrir 17 ára landslið Íslands, og hefði eflaust komist langt í þeirri íþrótt líka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×