Innlent

Samkeppniseftirlitið hafnaði beiðni Markaðsráðs kindakjöts

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Samkeppniseftirlitið hefur hafnað beiðni Markaðsráðs kindakjöts um undanþátu frá samkeppnislögum.
Samkeppniseftirlitið hefur hafnað beiðni Markaðsráðs kindakjöts um undanþátu frá samkeppnislögum. vísir/valli
Markaðsráð kindakjöts hefur ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir undanþágu frá samkeppnislögum séu uppfyllt vegna umsóknar ráðsins um leyfi til aukins samstarfs sláturleyfishafa við útflutning á kindakjöti. Þetta er mat Samkeppniseftirlitsins.

Í bréfi sem Samkeppniseftirlitið hefur sent Markaðsráði gerir eftirlitið grein fyrir frummati sínu á umsókn ráðsins. Hafnar það umsókninni en býður þó ráðinu að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts, segir frummat Samkeppniseftirlitsins vera til skoðunar. „Við erum að taka saman yfirlit yfir þau opinberu gögn sem til eru, en við höfum ekki safnað saman öðrum gögnum, til dæmis um starfsemi sláturleyfishafanna, því við höfum ekki talið það heimilt. En við erum að skoða málið og höfum ekki tekið ákvörðun um næstu skref.“

Markaðsráðið óskaði eftir því við eftirlitið fyrr í sumar að því yrði veitt tímabundin undanþága frá samkeppnislögum vegna samstarfs sláturleyfishafa um útflutning og markaðssetningu á kindakjöti á erlendum mörkuðum. Í stað þess að útflutningur yrði á hendi hvers sláturleyfishafa var hugmyndin sú að fyrirtækin sneru bökum saman undir merkjum Markaðsráðs og stæðu saman að útflutningi. Taldi ráðið aukna samvinnu nauðsynlega til þess að takast á við þrengingar á útflutningsmörkuðum.

Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu voru á meðal þeirra sem lögðust gegn því að undanþágubeiðni Markaðsráðs yrði samþykkt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×