Erlent

Stjórnarandstöðuleiðtogar í Venesúela handteknir

Kjartan Kjartansson skrifar
Antonio Ledezma var dreginn burt af heimili sínu á náttfötunum í nótt eins og sást á myndskeiði sem náðist af handtökunni.
Antonio Ledezma var dreginn burt af heimili sínu á náttfötunum í nótt eins og sást á myndskeiði sem náðist af handtökunni. Vísir/AFP
Fulltrúar öryggissveita stjórnvalda í Venesúela handtóku tvo leiðtoga stjórnarandstöðunnar í nótt. Mennirnir tveir voru færðir í járn á heimilum sínum.

Bandaríkjastjórn sakaði í gær Nicolas Maduro, forseta Venesúela, um að taka sér einræðisvald með atkvæðagreiðslu sem fór fram í landinu um helgina. Hún lagði grunninn að nýju löggjafarþingi sem er hliðhollt Maduro. Stjórnarandstaðan er með meirihluta á þjóðþinginu.

Leopoldo López og Antonio Ledezma voru báðir í stofufangelsi, sá fyrrnefndi fyrir þátt sinn í götumótmælum gegn Maduro fyrir þremur árum en sá síðarnefndi er ákærður fyrir að hafa lagt á ráðinn um valdarán. Þeir eru báðir fyrrverandi borgarstjórar höfuðborgarinnar Carácas en hafa verið opinskáir andstæðingar Maduro.  

Reuters-fréttastofan segir að myndbönd hafi verið birt af því þegar þeir voru dregnir burt á náttfötunum. Eiginkona López sagði einræðisstjórnina hafa rænt manni sínum í færslu á Twitter.

Þeir höfðu báðir hvatt til mótmæla gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudag. Stjórnarandstaðan sniðgekk hana en hún sakar Maduro um að reyna að sölsa undir sig enn frekari völd í landinu.

Maduro sakar stjórnarandstöðuna aftur á móti um að ætla að ræna sig völdum. 

Á að koma á ró í landinu

Nýja löggjafarþingið mun hafa vald til þess að breyta stjórnarskrá Venesúela og taka fram fyrir hendurnar á öðrum stofnunum ríkisins. Maduro segir að tilgangur þess sé að koma aftur á ró í landinu en 120 manns hafa látið lífið í óeirðum frá því í apríl.

Bandarísk stjórnvöld samþykktu í gær refsiaðgerðir gegn Maduro. Eignir hans í Bandaríkjunum hafa verið frystar og er bandarískum fyrirtækjum og einstaklingum bannað að eiga viðskipti við hann.


Tengdar fréttir

Bandaríkin leggja refsiaðgerðir á forseta Venesúela

Bandarísk fyrirtæki og einstaklingar mega ekki eiga nein viðskipti við Nicolas Maduro, forseta Venesúela, samkvæmt refsiaðgerðum sem Hvíta húsið tilkynnti um í dag. Aðgerðirnar eru viðbragð við atkvæðagreiðslu sem fór fram í Venesúela um helgina sem er talin tilraun Maduro til að sölsa undir sig frekari völd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×