Erlent

Pakistanska þingið greiðir atkvæði um nýjan forsætisráðherra

Atli Ísleifsson skrifar
Shahid Khaqan Abbasi hefur áður gegnt embætti olíumálaráðherra Pakistans.
Shahid Khaqan Abbasi hefur áður gegnt embætti olíumálaráðherra Pakistans. Vísir/AFP
Pakistanska þingið mun greiða atkvæði um skipun nýs forsætisráðherra klukkan 10 að íslenskum tíma. Fastlega er búist við að fyrrverandi olíumálaráðherrann Shahid Khaqan Abbasi verði þar skipaður.

Nawaz Sharif lét af embætti forsætisráðherra fyrir helgi eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að hann væri ekki hæfur til að gegna opinberu embætti.

Áætlun pakistönsku stjórnarinnar gengur út á að Abbasi skuli gegna embætti forsætisráðherra til bráðabirgða eða þar til að Shahbaz Sharif, bróðir Nawaz Sharif, nái kjöri á þing að fáeinum mánuðum liðnum og taki þá við þessu valdamesta embætti landsins.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Imran Khan hefur gagnrýnt fyrirætlan stjórnarinnar og líkt stjórnarháttum við konungsveldi.

Dómarar hafa undanfarin misseri verið að rannsaka meint tengsl Nawaz Sharif við aflandsreikninga og lúxuseignir í útlöndum sem skráðar eru á þrjú barna hans.

Reikningarnir komu í ljós í Panamaskjölunum svokölluðu árið 2015 og forsætisráðherrann hafði ekki gert grein fyrir þeim í fjárhagsyfirlýsingu þegar hann tók við embætti forsætisráðherra. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×