Senua þjáist þó af geðrænum vandræðum og útlit heimsins sem Senua ferðast um tekur mið af því. Heimurinn virðist breytast eftir hugarástandi hennar og oft á tíðum er eins og hún sé komin aftur í þorpið sitt.
Ég þekki nú ekki hvernig þessi geðrænu vandamál lýsa sér í alvörunni. Þegiðu Jón og farðu út með þessa hunda. Bölvuðu leðurblökur eru sífellt að reyna að ná teningunum mínum. Þetta kemur þó mjög vel út. Hljóðið og þá sérstaklega raddirnar sem eru að hvísla að Senua eru mjög vel útfærðar. Þær bæði hjálpa manni og gera manni erfitt fyrir um. Það er nánast nauðsynlegt að spila þennan leik með góð heyrnartól.
Þrautir og bardagar leiksins draga hann þó niður að mínu mati.
Þrautir leiksins taka mið af því hvaða guð Senua er að elta uppi. Þær geta verið tímafrekar og jafnvel leiðinlegar.
Versta atvikið sem ég lenti í var á lið að Surti og þar þarf að finna rúnir í umhverfi leiksins sem samsvara rúnum á hurðum. Eina rúnina var ég búinn að finna rúnina inn í einhverju húsi, en hún virtist vera öfugsnúin. Eftir fáránlega langa leit kom ég alltaf aftur að snúnu rúninni inn í húsinu. Eftir um korter af pirringi og leiðindum fattaði ég loksins að fara út úr húsinu og horfa á rúnina úr hinni áttinni. Það var svolítið aulalegt.
Það eru skemmtilegar þrautir þarna inn á milli, en að mestu virkar þetta sem einhvers konar uppfylling og þær þvælast fyrir spilun leiksins.
Bardagakerfi HSS er í einfaldari kantinum. Það býður upp á léttar og þungar árásir og Senua getur skutlað sér til hliðar til að forðast árásir ódauðra víkinga með einhverskonar hreindýrahöfuð. Þar að auki getur hún varist höggum og sparkað. Ofan á það getur Senua notast við nokkurs konar Bullet-time til að hægja á óvinum sínum og skera þá í bita.
Á heildina litið er HSS mjög áhugaverður og frumlegur leikur og starfsmenn Ninja Theory eiga hrós skilið fyrir það. En. Nú veit ég að ég er að synda á móti straumnum, en hann fangaði mig ekki. Grafíkin er frábær, hljóðið er klikkað, talsetning geggjuð, sagan áhugverð en ég kann ekki að meta spilunina og hafði á heildina ekki gaman af leiknum.