Bayern München vann 3-1 sigur á Bayer Leverkusen í fyrsta leik nýs tímabils í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðin mættust á Allianz Arena í kvöld.
Mikil rigning setti svip sinn á leikinn og þurfti meðal annars að seinka seinni hálfleiknum um tuttugu mínútur hennar vegna.
Seinni hálfleikinn byrjaði síðan á því að dómarinn dæmdi víti eftir að hafa fengið skilaboð frá vídeódómara sem var staddur í Köln.
Eftir að vídeódómarinn skoðaði atvikið þá fékk dómari leiksins þær upplýsingar að boltinn hafi farið í hendi varnarmanns Leverkusen innan teigs. Dómarinn dæmdi því víti og gaf Leverkusen-manninum gult spjald. Þetta er í fyrsta sinn sem dæmt er eftir myndbandsupptöku i Bundesligunni.
Robert Lewandowski skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni en markið kom á 53. mínútu og Bæjarar þar með komnir í 3-0. Þetta var 61. mark Lewandowski í síðustu 66 deildarleikjum hans með Bayern.
Fyrri tvö mörkin komu á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Það fyrra skoraði miðvörðurinn Niklas Süle á 9. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu Sebastian Rudy og það síðara skoraði Corentin Tolisso á 19. mínútu með skalla eftir sendingu frá Arturo Vidal.
Leverkusen liðið gafst ekki upp þrátt fyrir slæma stöðu og Svisslendingurinn Admir Mehmedi minnkaði muninn á 65. mínútu. Leverkusen lék mun betur í seinni hálfleik en þeim fyrr og var nokkrum sinnum nálægt því að minnka muninn enn frekar.
Bæjarar byrjuðu tímabilið vel í úrhellinu í München
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
