Enski boltinn

Gylfi: Draumurinn að vinna titla með Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson með Ronaldo Koeman.
Gylfi Þór Sigurðsson með Ronaldo Koeman. Mynd/Twitter-síða Everton
Gylfi Þór Sigurðsson var í kvöld kynntur sem nýr leikmaður Everton en hann er dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Auk þess að birta fyrstu myndirnar af Gylfa í Evrerton-búningnum þá var Gylfi einnig í stuttu viðtali á heimasíðu Everton.

„Vonandi tekst mér áfram að skora og búa til mörk og hjálpa til að ná þeim árangri sem við viljum ná hjá þessu félagi,“ sagði Gylfi.

„Þetta er metnaðarfullur klúbbur og það er augljóst að við erum á leið í rétta átt. Mikilvægast er að liðið haldi áfram að vinna leiki og klífa upp töfluna allt þetta tímabil,“ sagði Gylfi.



„Ég vil skora eins mörg mörk og möguleiki er og líka búa til eins mörg mörg fyrir liðsfélaga eins og ég get. Það eru mín markmið en á meðan liðið er að vinna þá er ég meira en ánægður,“ sagði Gylfi.

Gylfi er spenntur að fá að spila fyrir Ronald Koeman, knattspyrnustjóra Everton.

„Hann var frábær leikmaður og einn sá besti á hans tíma. Nú er hann góður knattspyrnustjóri og framtíðarsýn hans hjá Everton er skýr. Hann hefur byggt upp sterkt lið hér með öflugum leikmönnum, bæði með ungum strákum og reynslumiklum leikmönnum. Það skipti miklu máli fyrir mig  að hann væri stjórinn,“ sagði Gylfi.

„Það er bæði draumur minn og allra hjá félaginu að vinna titla með Everton. Ég held að bæði stuðningsmennirnir og við leikmennirnir getum verið sammála um það,“ sagði Gylfi en það má sjá allt viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×