Innlent

83 prósent nota símann undir stýri

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hlutfall framhaldsskólanema sem tala í símann undir stýri hækkar með hækkandi aldri.
Hlutfall framhaldsskólanema sem tala í símann undir stýri hækkar með hækkandi aldri. vísir/stefán
Fimm af hverjum sex framhaldsskólanemum hér á landi notar snjallsíma undir stýri. Notkun eykst með hækkandi aldri. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Sjóvá lét gera.

Könnunin var lögð fyrir framhaldsskólanema og tóku rúmlega sjötíu prósent þátt. Alls sögðust 83 prósent nota símann undir stýri. Rúmlega sjö af hverjum tíu 17 ára nemum játuðu því að nota símann stundum eða oftar við akstur en í hópi 20 ára og eldri var hlutfallið 92 prósent. Flestir tala í símann undir stýri eða 71 prósent. Tæplega sex af hverjum tíu senda SMS eða nota símann til að leita upplýsinga samhliða akstri og helmingur segist skoða og senda Snapchat skilaboð undir stýri.

Einar Magnús Magnússon
Í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Fréttablaðsins um fjölda slysa sem rekja megi til farsímanotkunar í akstri segir að slík tölfræði sé af skornum skammti. Vanskráning sé á þeim þar sem lögreglan hafi litlar heimildir til rannsókna umfram það að spyrja hvort farsímanotkun hafi átt sér stað. Flestir ökumenn neiti því.

„Það hafa orðið banaslys sem rakin eru til farsímanotkunar ökumanna,“ segir Einar Magnús Einarsson, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu. Hann bætir því við að þau banaslys séu notuð í forvarnarefni stofnunarinnar.

Einar segir einnig að niðurstöður könnunarinnar séu sláandi. Fyrir nokkru hafi Samgöngustofa látið gera könnun meðal ökumanna um viðhorf þeirra til farsímanotkunar undir stýri. Tæplega 100 prósent aðspurðra hafi svarað því að þeir telji hana hættulega. Í vikunni fer átakið Höldum fókus af stað á nýjan leik en því er ætlað að fá ökumenn til að sleppa farsímanum meðan þeir aka. Einar telur einnig að rétt sé að kanna að breyta verklagi og reglum hér á landi.

„Í Bretlandi er bannað með öllu að handleika farsíma á meðan á akstri stendur. Það er spurning hvort við þurfum að taka slíkar reglur upp hér,“ segir Einar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×