Kafbátaeigandinn Peter Madsen, sem bjargað var þegar kafbáturinn hans sökk í gær, hefur verið handtekinn fyrir manndráp af gáleysi.
Kim Wall, þrítug blaðakona sem hefur skrifað fyrir The New York Times, The Guardian og Vice Magazine hefur verið saknað síðan í gær en vitað er að hún fór um borð í kafbátinn fyrr um daginn til þess að skrifa grein um Madsen og kafbátinn.
Báturinn sem ber nafnið „The Nautilus“ er stærsti kafbátur í einkaeigu í heiminum. Peter þverneitar fyrir að hún hafi verið um borð þegar báturinn sökk. Segir hann að hún hafi verið komin upp á þurrt land þegar slysið varð.
Enn hefur ekki tekist að nálgast kafbátinn en hann liggur á botni Køge-flóa suður af Kaupmannahöfn. Lögregla leitar nú að vitnum og skoðar upptökur úr eftirlitsmyndavélum.
