Erlent

Segir hótanir um hernaðarinngrip vera brjálæði ofstækisfullrar elítu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, og Vladimir Padrino, varnarmálaráðherra landsins, á hersýningu fyrr í sumar.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, og Vladimir Padrino, varnarmálaráðherra landsins, á hersýningu fyrr í sumar. Vísir/AFP
Varnarmálaráðherra Venesúela, Vladimir Padrino, segir hótanir um mögulegt hernaðarinngrip Bandaríkjanna í Venesúela vera „brjálæði“ og að þær beri vott um gríðarlegar öfgar Bandaríkjaforseta. Sagði Padrino einnig að ofstækisfull elíta stjórni Bandaríkjunum.

Í viðtali við blaðamenn í gærkvöldi sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að hann útiloki ekki hernaðarinngrip í Venesúela. Bandaríkin hafa beitt Venesúela viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum á undanförnum vikum og hefur Trump gagnrýnt Maduro, forseta Venesúela, harðlega og kallað hann einræðisherra.

„Venesúela er ekki langt í burtu og fólkið þar er að þjást og þau eru að deyja. Við höfum marga möguleika í Venesúela og þar á meðal mögulegt hernaðarinngrip,“ sagði Trump.

Padrino, sem er jafnframt einn æðsti stjórnandi hersins, sagði að hann standi með Venesúela og almenningi. „Ég er viss um að við munum fylkja okkur í fremstu víglínu til að verja hagsmuni og fullveldi landsins sem við elskum,“ sagði Padrino.

Samskiptaráðherra Venesúela, Ernesto Villegas, kallaði ummæli Trumps „fordæmalausa ógnun við fullveldi þjóðar.“

Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu bað Maduro um símafund með Trump í gær en var hafnað. Sagði Trump að hann myndi ræða við leiðtoga Venesúela þegar lýðræði væri aftur komið á í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×