Fótbolti

Strákarnir niður um eitt sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir okkar unnu Króata í júní.
Strákarnir okkar unnu Króata í júní. vísir/ernir
Ísland fellur um eitt sæti á styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í dag. Strákarnir okkar falla úr þvi nítjánda í tuttugasta, sem er þá næstbesti árangur okkar manna á listanum frá upphafi.

Íslenska liðið hefur enga leiki spilað síðan að síðasti listi var gefinn út en missir Wales fram úr sér í útreikningum FIFA. Ísland er einu sæti á eftir Svíum, sem er efsta Norðurlandaþjóðin á listanum.

Á meðal Evrópuþjóða er Ísland í þrettánda sæti en hafa ber í huga að tólf bestu þjóðirnar í Evrópu að lokinni undankeppni HM 2018 verða settar í A-deild í Þjóðardeild UEFA, sem hefst næsta haust.

Íslensku strákarnir hafa því að miklu að keppa í lokaleikjum sínum í undankeppninni - bæði með því að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi og komast í A-deild Þjóðardeildarinnar, sem getur stóraukið líkurnar á því að Ísland komist á EM 2020.

Brasilía hefur tekið efsta sæti listans af heimsmeisturum Þýskalands. Argentína er í þriðja sætinu, á undan Sviss og Póllandi, en Evrópumeistarar Portúgals dettur úr fjórða sætinu í það sjötta.

England er í þrettánda sæti en listann allan má sjá á heimasíðu FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×