Innlent

Komum á bráðamóttöku á Suðurlandi fjölgar um þriðjung

Kjartan Kjartansson skrifar
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Vísir/Pjetur
Rekstrarfé Heilbrigðisstofnunar Suðurlands dugar ekki til að manna stöður í ljósi þess að komum á bráðamóttöku þar hefur fjölgað um 34% síðustu tvö árin.

Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að bráðamóttakan sé ný af nálinni og hafi vaxið hratt. Þangað sæki margt fólk bæði úr sumarhúsum og erlendir ferðamenn.

„Í dag eru náttúrulega miklu fleiri staddir á Suðurlandi á hverjum tíma en áður þannig að við eigum í erfiðleikum með að fylgja eftir með mönnun og annað,“ sagði Hjörtur í fréttum Bylgjunnar í hádeginu.

Hann sér fram á áframhaldandi fjölgun sjúklinga og reynt verði að mæta henni með aukinni mönnun þrátt fyrir að fjármögnun liggi ekki fyrir.

„Við erum að reyna að fá meira fjármagn í þetta. Ég veit ekki hvernig það gengur eftir en að sjálfsögðu reynum við að sinna kúnnunum þegar þeir koma með einhverjum hætti,“ segir Hjörtur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×