Innlent

Bæjarhátíðirnar verða blautar í dag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tindahlaup Mosfellsbæjar fer fram í dag í tilefni bæjarhátíðarinnar Í túninu heima.
Tindahlaup Mosfellsbæjar fer fram í dag í tilefni bæjarhátíðarinnar Í túninu heima.
Þeir sem ætla að leggja leið sína á einhverra hinna fjölmörgu bæjarhátíða sem fara fram um helgina ættu ekki að hafa pollagallann langt undan.

Veðurstofan gerir ráð fyrir snarpri suðaustanátt í dag og „talsverðri rigningu“ sums staðar, sérstaklega á sunnan- og vestanverðu landinu. Fyrr norðan og norðaustan ætti að haldast að mestu þurrt fram eftir degi en búast má við stöku skúrum þar síðdegis.

Þá verður farið að rigna á sunnanverðum Austfjörðum í kvöld. Það dregur þó úr vindi og úrkomu suðvestantil með kvöldinu. Snýst svo smám saman í suðvestanátt með skúrum á morgun. Áfram er útlit fyrir fremur milt veður á landinu.

Hiti 10 til 17 stig að deginum, hlýjast norðaustanlands. Meira á veðurvef Vísis.

Veðurhorfur á landinu

Á sunnudag:

Suðvestan 5-13. Rigning með köflum um landið sunnan og vestanvert og hiti 8 til 13 stig. Yfirleitt þurrt og bjart norðaustan- og austanlands með hita að 17 stigum.

Á mánudag:

Fremur hæg breytileg átt með vætu í flestum landshlutum. Snýst í norðan 5-10 síðdegis og rofar heldur til suðvestanlands um kvöldið. Hiti 8 til 14 stig.

Á þriðjudag:

Norðan og norðvestan 5-13 m/s. Rigning á Norður- og Austurlandi framan af degi og hiti 4 til 8 stig. Bjartviðri um landið sunnan og vestanvert og allt að 15 stiga hiti í innsveitum. Víða léttskýjað undir kvöld, en þykknar upp vestantil.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Hæg suðvestlæg átt. Skýjað og lítilsháttar súld eða þokumóða vestantil, en bjartviðri eystra. Hiti 8 til 15 stig.

Á föstudag:

Útlit fyrir suðvestanátt og rigningu eða skúri en bjartviðri á Austurlandi. Hiti 9 til 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×