Innlent

Ekki allir sem hlakka til að fara í skólann

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þóra segir mikilvægt að byggja upp góðan skólabrag til að sporna gegn einelti.
Þóra segir mikilvægt að byggja upp góðan skólabrag til að sporna gegn einelti. visir/getty
„Rannsóknir sýna að einelti komi helst fram að miðstigi í grunnskóla en ræturnar er hægt að rekja alveg niður í leikskóla eins og þegar börn neita að leiða þann sem er við hliðina á sér, vilja ekki bjóða þessum eða hinum heim eða vilja ekki leika við þennan eða hinn að þá eru þetta fyrstu vísbendingar um einhverja neikvæða hegðun sem getur þróast út í eineltishegðun.“ Þetta segir Þóra Jónsdóttir hjá Barnaheillum sem um þessar mundir stendur fyrir átaki gegn einelti undir yfirskriftinni „Verndum börnin.“

Þóra var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis þar sem hún ræddi um stöðuna, eins og hún er í dag og hvað þurfi til að sporna gegn einelti. Þóra hefur, með Barnaheillum, unnið ötullega að því að draga úr eineltishegðun með fræðslu.

Mikilvægt að byggja upp góðan skólabrag

Aðspurð segist Þóra telja að okkur hafi tekist ágætlega við að draga úr eineltishegðun. „Það hefur vissulega orðið mikil vitundarvakning mjög víða um einelti og margt verið gert til að minnsta kosti fræða og reyna að breyta hegðun hópa. Auðvitað eru flestir skólar með áætlanir um hvernig bregðast eigi við einelti og nýta þær áætlanir, eftir því sem ég best veit, ágætlega. Það verður auðvitað seint, og vonandi þó sem fyrst, hægt að útrýma einelti. Það er mjög margt sem fæst bara með því að byggja upp góðan skólabrag í öllum skólum,“ segir Þóra sem segir að við séum á allt öðrum stað í dag en fyrir fimmtán árum síðan.

Mikilvægt að grípa strax inn í

Að sögn Þóru er brýnt að hefja vinnu gegn einelti á fyrstu skólastigum og þá sé mikilvægt að bregðast fljótt við á fyrstu stigum eineltis. Átakið „Verndum börnin“ miðar að því að fræða almenning um það hvernig megi koma í veg fyrir einelti og sporna gegn því að það magnist upp.

Allir geta orðið fyrir einelti

Hún segir að enginn einn sé útsettari fyrir einelti en annar. „Þetta er eitthvað sem gengur jafnt yfir alla. Það er ekki hægt að finna einhvers konar vísbendingar um að einhver einn tiltekinn eða einn hópur verði frekar fyrir einelti því það getur gerst fyrir hvern sem er,“ segir Þóra.

Á heimasíðu „Verndum börnin“ er hægt að glöggva sig frekar á málstaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×